Hefur verið draumur í langan tíma að stofna og vera með þitt eigið fyrirtæki en þú veist ekki alveg hvað felst í því að vera atvinnuveitandi?
Að hefja eigin atvinnurekstur er spennandi skref sem krefst góðs undirbúnings og skilnings á skyldum og réttindum. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum er mikilvægt að greina á milli verktaka og launamanna, þar sem þessi hlutverk hafa mismunandi skyldur gagnvart skattyfirvöldum.

Verktakar vs. Launamenn
Þó þú sért með með fyrirtæki, þá geturðu verið með verktaka í vinnu sem og launamenn – En það er þó ákveðinn munur sem felst í því.
Verktaki er einstaklingur eða félag sem tekur að sér að vinna ákveðið verk fyrir fyrirfram ákveðið verð og ber ábyrgð á árangri verksins. Launamaður er hins vegar einstaklingur sem vinnur undir stjórn og ábyrgð vinnuveitanda gegn greiðslu launa. Munurinn felst meðal annars í eftirfarandi atriðum:
Skattar og gjöld sem starfsmaður greiðir (í gegnum staðgreiðsluskil sem vinnuveitandi annast):
- Tekjuskattur
- Útsvar
- Iðgjald í lífeyrissjóð
Gjöld sem vinnuveitandi greiðir vegna starfsmanna (launatengd gjöld):
- Tryggingagjald
- Mótframlag í lífeyrissjóð
- (Fjársýsluskattur – eftir atvikum)
Ábyrgð vinnuveitanda:
- Að halda eftir og standa skil á framangreindum sköttum og gjöldum í staðgreiðsluskilum sem starfsmanni ber að greiða
- Að standa skil á launatengdum gjöldum
Verktakar bera hinsvegar sjálfir ábyrgð á að reikna sér laun fyrir vinnu sína í rekstrinum og greiða tilheyrandi skatta og gjöld. Þeir þurfa einnig að færa bókhald, gefa út sölureikninga eða nota sjóðvél, gera upp reksturinn og skila niðurstöðum með skattframtali og fylgiskjölum. Auk þess ber þeim að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti ef starfsemin er virðisaukaskattsskyld.
Skráning hjá skattyfirvöldum
Bæði verktakar og vinnuveitendur þurfa að skrá sig hjá ríkisskattstjóra:
- Launagreiðendaskrá: Vegna staðgreiðslu af tekjum starfsmanns ásamt tryggingagjaldi (og eftir atvikum fjársýsluskatti) og skil á launamiðum og launaframtali.
- Virðisaukaskattsskrá: Ef starfsemi er virðisaukaskattsskyld.
Að lokum er rétt að minna á að góð þekking á skyldum og réttindum er lykilatriði fyrir farsælan rekstur. Því er mikilvægt að leita sér upplýsinga og ráðgjafar áður en hafist er handa við eigin rekstur.
Frekari upplýsingar má finna á vef skattsins:
https://www.skatturinn.is/atvinnurekstur/ad-hefja-rekstur/stofna-rekstur/